FYRIRTÆKIÐ

Um okkur

Fyrirtækið KLAKI sf var stofnsett árið 1972. Á þeim tíma var mikil þörf fyrir margskonar búnað til notkunar í fiskvinnslum sem tók mið af auknum kröfun um hagkvæmni og hreinlæti við vinnslu á fiski og öðru sjávarfangi.

Þann 1. nóvember 1997 varð sú breyting á fyrirtækinu að fyrrverandi eigandi seldi það í heild sinni til annarra aðila sem reka reka það undir sama nafni en rekstrarforminu hefur verið breytt í einkahlutafélag. Starfsemi nýja fyrirtækisins er að hluta sú sama og áður, þ.e. framleiðsla á tækjum og búnaði til vinnslu á fiski, bæði til sjós og lands. Einnig eru ýmsar nýjungar á döfinni sem miða að því að auðvelda starfsfólki vinnu sína og auka hagkvæmni við fiskvinnslu í þróun hjá fyrirtækinu. Gæði framleiðslunnar og góð verð eru þeir þættir sem hafðir eru í fyrirrúmi hjá KLAKA ehf.

Helstu vörur sem þróaðar og framleiddar hafa verið hjá fyrirtækinu eru útdraganleg færibönd (teleskóp færibönd) sem notuð eru í lestum skipa og auðvelda mjög alla vinnu í lestinni. Fiskilyftur sem flytja fisk lóðrétt og spara því mikið gólfrými. Til sjós er þessi eiginleiki mjög mikils virði. Við fiskilyfturnar eru einnig framleidd kör þannig er hægt að þvo slægðan fisk og lyfta honum síðan í þá hæð sem óskað er eftir. Hjá KLAKA ehf hafa einnig verið þróuð og framleidd flutningskerfi í lestar frystitogara með tilheyrandi lyftibúnaði og sjálfvirkri röðun á færibönd. Fyrir frystitogara eru einnig framleiddar fiskidælur sem reynst hafa mjög vel sem og vökvadrifnir pönnuvagnar sem notaðir eru til að taka við pönnum frá plötufrystum.

Um langt árabil hefur framleiðsla á færibandareimum verið einn af þeim þáttum sem boðið hefur verið upp á. Mikið úrval af mismunandi gerðum færibandareima eru til á lager. Þær eru framleiddar í þeirri breidd sem óskað er eftir. Reimarnar eru soðnar saman eða settar saman með reimalásum en þeir eru einnig til á lager hjá fyrirtækinu.

Þessu til viðbótar hefur all nokkur innflutningur verið stundaður hjá KLAKA í gegnum tíðina. Fluttar hafa verið inn gólfgrindur sem eru með kornóttu yfirborði til að varna því að þær verði hálar, Parker vökvamótorar hafa verið fluttir inn um nokkurra ára skeið en helstu kostir þeirra eru að þeir hafa mikinn kraft við lágann snúningshraða og eru með ryðfrían öxul. Mótorarnir eru sinkhúðaðir og málaðir. Þannig haldast þeir eins og nýir þrátt fyrir mikla notkun til sjós eða í umhverfi þar sem mikið vatn er notað.

Nýir eigendur fyrirtækisins líta björtum augum til framtíðarinnar. Með átaki í gæðamálum, fjárfestingum í tækjum og markvissri vöruþróun er hægt að standast þá hörðu samkeppni sem ríkir á þessum markaði og hasla sér völl með nýjungar bæði innanlands og erlendis.