Nýstárlegar lausnir í hálfa öld

Á köldum Klaka í yfir 50 ár

  • 1972 – Stofnun Klaka
    • Benedikt Sigurðsson var frumkvöðull fram í fingurgóma. Hann ferðaðist á milli fiskvinnslna á vegum Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna til að leysa hin ýmsu vandamál sem sneru að framleiðslu þeirra. Víða þar sem hann kom, þótti honum starfsfólk óþarflega mikið á ferðinni með kassa og þungar byrðir, og fær fljótt þá hugdettu að framleiða rúllubrautir sem hægt væri að ýta kössunum eftir. Hann ákveður þá að nota nýlega byggðan bílskúr sinn til framleiðslunnar, ráðstafar heimilissparnaðinum í að kaup vinkla, rör, öxla og fleira og tilkynnir loks eiginkonu sinni um uppátækið. Henni þótti lítið til þess koma og segir við Benna að „hann eigi eftir að koma þeim á kaldan klaka“ með þessu háttarlagi. Benni grípur þetta á lofti og stofnar til framleiðslunnar undir merkjum Klaka s.f.
  • 1987 – Útdraganleg færibönd
    • Ein farsælasta lausn frá Klaka er óneitanlega hið svokallaða „telescope band“ en það hefur selst í hundruðum eintaka um allan heim. Lausnin er einkar vinsæl í lestum skipa og þar sem athafnarými er af skornum skammti.
  • 1989 – Fiskilyftur
    • Nýtast vel þar sem flytja þarf fisk lóðrétt upp, spara pláss, og hafa selst í tugum eintaka gegnum tíðina.
  • 1997 – Önnur kynslóð
    • Bræðurnir frá Vestmannaeyjum þeir Bergur og Lárus Ólafssynir taka við rekstri Klaka árið 1997. Bergur hafði til þessa útfært og teiknað töluvert af lausnum fyrir Klaka í gegnum ráðgjafafyrirtæki sitt INTEK.
  • 1998 – Fiskidælur
    • Slá tvær flugur í einu höggi, með því að þvo fiskinn og flytja hann að næsta áfangastað í vinnsluferlinu. Þær eru eingöngu notaðar um borð í skipum og hafa verið seldar um allan heim.
  • 2000 – Úrsláttarvélar
    • Losa frosna afurð úr frystipönnum og hafa notið mikilla vinsælda um allan heim fyrir einfaldleika, áreiðanleika og sparnað á plássi.
  • 2019 – Nýr kafli
    • Vél- og verkfræðingarnir Óskar Pétursson og Páll S. Helgason taka við rekstri Klaka. Þeir auka áherslur á sjálfvirknislausnir með róbótum og myndgreiningu
  • 2020 – Vinnslubúnaður skipa
    • Klaki smíðar helming af vinnslubúnaði á millidekk eins fullkomnasta frystitogara Íslands. Klaki hefur í gegnum tíðina smíðað og breytt nokkrum tuga millidekkja.
  • 2021 – Vinnslubúnaður í ferskfisktogara, frá móttöku til löndunar
    • Klaki undirritar samninga við Ramma hf. um heildarlausn í nýsmíðaskip félagsins. Lausnin telur til vinnslulínu á millidekki og síðar (2022) sjálfvirka karalest fyrir aflann.
    • Hágæðameðhöndlun hráefnis og einföldun á vinnu og aðbúnaði til að létta sjómönnum störf er höfð í forgrunni við þróun lausnarinnar.
  • 2021 – Samvinnuróbótar
    • Klaki verður viðurkenndur þjónustu- og uppsetningaraðili (Certified System Integrator) fyrir Universal Robots, sem eru stærsti samvinnuróbótaframleiðandi í heimi.
  • 2022 – Rekstrarleiga á róbótum
    • Klaki hefur að bjóða róbatalausnir í rekstrarleiguformi sem er nýjung á markaði.
  • 2022 – Tölvusjón, myndgreining og gervigreind
    • Róið á ný mið og aukin þekking byggð upp innan fyrirtækisins í myndgreiningarlausnum og tölvusjón. Frumgerðir fyrstu gervigreindarvæddu myndgreiningalausna fyrirtækisins líta dagsins ljós.
  • 2022 – Styrking við róbótadeildina
    • Klaki hefur samstarf við hinn rótgróna róbótaframleiðanda, Yaskawa sem eru þekktir fyrir Motoman róbóta sína. Með þeim er sótt í stærri og heildstæðari róbotaverkefni.