Nýr kafli í 48 ára sögu Klaka.

Viðtal við Pál og Óskar birtist í tímariti Sóknarfæra nú á dögunum og má sjá hér að neðan.

Nýr kafli í 48 ára sögu Klaka

Vél- og verkfræðingarnir Óskar Pétursson og Páll S. Helgason hafa
bæst í hlutahafahóp Klaka ehf. í Kópavogi.

„Við sjáum mikil tækifæri í að byggja ofan á þann grunn sem Klaki hefur lagt á undanförnum árum, þróa áfram tækjabúnaðinn sem við framleiðum, auka sjálfvirkni, nýta nútíma tækni til að gera stjórnun búnaðarins auðveldari, auka nýsköpun í okkar framleiðslu og geta boðið upp á alsjálfvirkar lausnir og róbóta,“ segja verkfræðingarnir Óskar Pétursson og Páll S. Helgason sem á síðasta ári gengu til liðs við þá bræður Berg og Lárus Ólafssyni í eigendahópi Klaka ehf. í Kópavogi. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á ryðfríum tækjum og búnaði fyrir sjávarútveg og aðrar greinar.       

Nýir möguleikar í tækjaframleiðslu og aukin áhersla á þróun

„Við vorum svo heppnir að kynnast þeim Bergi og Lárusi sem þróaðist þannig að við komum inn í reksturinn í fyrra. Þeir hafa rekið Klaka síðustu 20 ár og starfa hér áfram svo lengi sem þeir vilja sjálfir. Að okkar mati nýtist okkar menntun og þekking vel til að byggja ofan á það sem fyrir er,“ segja þeir Óskar og Páll sem báðir eru verkfræðingar og vélfræðingar. Páll er menntaður róbótaverkfræðingur en Óskar menntaður rafmagnsverkfræðingur og forritari. „Klaki hefur í nærri hálfa öld framleitt vélbúnað, færibönd og ýmiskonar sérlausnir. Við höfum vel búna stálsmiðju og með innkomu okkar þá verður getan í tækjaframleiðslu enn meiri en áður,“ segir Páll en sem dæmi um vinnslubúnað sem Klaki framleiðir má nefna færibönd, fiskidælur, fiskilyftur, úrsláttarvélar og frystipönnur. Einnig sinnir fyrirtækið ýmissi sérsmíði og nú hafa bæst við ný gerð stillanlegra vinnupalla og ýmsar lausnir í stjórnbúnaði. Klaki mun á næstunni auka úrval sjálfvirkra lausna ásamt því að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á uppsetningu róbóta af ýmsum gerðum. „Fyrirtækið er þekkt fyrir að framleiða einfaldan og traustan búnað sem hefur enst vel við krefjandi aðstæður sem eru t.d. í skipum og fiskvinnslum,“ segir Páll.

Millidekksbúnaður í nýjan Baldvin Njálsson GK

„Það er mikið að gera hjá okkur og búið að vera síðustu mánuði. Þar ber hæst smíði á búnaði fyrir millidekk í nýjan frystitogara Nesfisks hf., Baldvin Njálsson GK. Okkar þáttur er framleiðsla á öllum færiböndum og stórum hluta búnaðar á millidekkinu, þ.e. frá móttöku að flokkun, að frátöldum hausurum, roðdráttarvélum og flökunarvél. Í okkar búnaði í verkinu nýtum við einmitt þá þekkingu sem við höfum á stjórnbúnaði í þeim tilgangi auðvelda vinnuna og yfirsýn þeirra sem starfa við vinnslukerfið,“ segir Óskar.

Byltingarkenndar lestarlausnir í þróun

Hann segir að Klaki vinni nú að hönnun á nýjum lestarkerfum fyrir skip sem eru með ker í lestum. „Kerfið byggist á búnaði sem hjálpar til við flutning á tómum kerum í lest. Við þekkjum það báðir af vinnu á sjó að lestarvinnan er erfið og kerin eru þyngri en áður. Útfærslan er blanda af færiböndum til að flytja afurðina og því sem við köllum Karakött, sem er búnaður sem auðveldar hásetum til muna að meðhöndla og færa til ker. Við stefnum að því að þetta kerfi verði í boði frá okkur síðari hluta næsta árs,“ segir Óskar.

Deildu núna:

Hafðu samband við okkur fyrir fyrirspurnir

Scroll to Top